Þegar við hugsum um heilsu, tengjum við þá hugsun gjarnan mataræði og líkamsrækt, en þriðji mikilvægi þáttur góðrar heilsu er SVEFN.
Ég vinn rúllandi vaktavinnu, 6 x 8 tíma vaktir á 5 sólarhringum.
Fyrst 2 næturvaktir, og sama dag og ég lýk seinni næturvaktinni er ég á fyrri kvöldvakt. Það er kallað hopp, þeas þegar maður er að fara á milli vakta. Á hoppinu eru ss bara 8 tímar á milli vakta, og á þeim tíma þarf maður að koma sér heim, borða, sofa hratt, vakna og mæta aftur í vinnuna. Svefninn á þessum hoppum er yfirleitt týndur fyrir mér. Kannski af því að það er dagur, ég á börn og þau koma heim úr skóla og þeir reyna eins og þeir geta að fara hljóðlega ef þeir vita af mér sofandi, en þeir eru krakkar og stundum tekst það ekki ;)
Svo er seinna hoppið, ss frá seinni kvöldvakt yfir á fyrri dagvakt. Þá gengur mér betur að sofa, líklegast vegna þess að þá er ég að sofa um nóttina.
Mér líkar rooooooosalega vel við þennan vinnutíma, hann hentar mér vel, en ég finn samt alveg að þegar ég fæ ekki næga hvíld, þá verð ég uppstökk og krumpuð í skapinu og langar í sukk !
Hérna fann ég áhugaverða grein um rannsókn sem var gerð við Svefnrannsóknarmiðstöðina í Surrey háskóla, þar sem stendur meðal annars:
„Vísindamönnunum fannst þó einna áhugaverðast að greina blóðprufurnar og sjá áhrifin sem misjafn svefntími hafði á genin. Þeir komust að því að þegar þátttakendur sváfu klukkustund skemur hafði það örvandi áhrif á gen sem eru talin tengjast bólgumyndun í líkamanum, viðbrögðum ónæmiskerfisins og streituviðbrögðum. Þá sáu vísindamennirnir einnig aukna virkni gena sem tengjast sykursýki og krabbameinsáhættu.
Hið gagnstæða gerðist þegar þátttakendur bættu klukkustund við nætursvefninn. Blaðamaður BBC, sem fylgdist með rannsókninni, segir að af niðurstöðunum megi því draga þá ályktun að ef þú sefur skemur en 7 klukkustundir á næturnar og hefur tök á því að breyta svefnvenjum þínum, jafnvel bara örlítið, þá gæti það bætt heilsu þína.“
Þegar ég er ekki að vinna, þá get ég hæglega farið að sofa snemma (þá meina ég um kl 22-23) en það er þessi vani að hanga yfir sjónvarpinu og tölvunni.
Þetta er óvani sem er að bitna á sjálfri mér !
Október er handan við hólinn og margir tengja október við Meistaramánuð.
Af hverju ekki að setja sem markmið að fara klukkutíma fyrr að sofa þennan mánuð og sjá hverju það breyting fyrir kroppinn þinn ?? Þú getur ekki keypt þér annan ef þessi klikkar, þú þarft að hugsa um hann :)
Langar að benda ykkur á þetta app sem mér finnst stórsniðugt til að halda utan um svona alls konar. Þú setur markmið og skráir tímann sem þú setur í það markmið og appið heldur utan um heildartíma.
aTimeLogger2 fyrir Android
aTimeLogger2 fyririPhone